Reynisdrangar
Erla S. Haraldsdóttir (f. 1967) hefur sérhæft sig gerð ljósmynda, teikninga og hreyfimynda þar sem hún skeytir saman í einu og sama verkinu efni af ólíkum uppruna. Fyrir nokkrum árum vann hún í samstarfi við listamanninn Bo Melin að athyglisverðum verkum sem sýndu götumyndir í Reykjavík. Þar var búið að læða ólíkum framandi þáttum inn án þess að maður áttaði sig á samskeytunum, grænmetismörkuðum, auglýsingaskiltum og öðru sem gaf borginni alþjóðlegt yfirbragð. Undanfarið hefur Erla notast töluvert við teikningu og flakkar í verkum sínum á milli ljósmyndaðs og teiknaðs
umhverfis. Hún vinnur með sama sjónarhornið og lætur suma búta vera handteiknaða en aðra ljósmyndaða. Verkið á forsíðu Læknablaðsins er unnið með þessari tækni og heitir Reynisdrangar frá árinu 2008. Erla vann verkið út frá hugleiðingum um umhverfismál, en henni var boðið að taka þátt í myndlistarverkefni þar sem afleiðingar gróðurhúsaáhrifa voru til umfjöllunar. Teikningin sýnir viðbrögð hennar við þeirri umræðu sem fram hefur farið á Íslandi í tengslum við hlýnun loftslags jarðar, að í þeim hamförum kunni jafnvel að felast tækifæri fyrir þjóðina. Ráðamenn hafa haft á orði nýtingu nýrra fiskistofna, opnun siglingarleiða, sem og látið sig dreyma um sólböð á ströndum gamla landsins. Erla snýr góðlátlega út úr slíkum hugmyndum með því að draga upp mynd af hinni berangurslegu og stormasömu fjöru suður af Vík, þar sem sést til Reynisdranga. Í flæðarmálinu skagar pálmatré fram og pelikani flýgur yfir fjöruborðinu. Í Reynisfjalli er sem kunnugt er mikil lundabyggð en Erla stingur upp á því að þeir kunni að víkja fyrir suðrænni tegundum, rétt eins og talað hefur verið um að túnfiskur kunni að taka við af þorskinum á Íslandsmiðum. Erla, sem búsett er í Berlín, hefur undanfarið unnið að frekari efnisöflun á sömu slóðum og fyrirhugar gerð teiknimyndar sem byggja mun á tengdum hugmyndum.