Málverkið mannlegt og djúpt

2015
Einar Falur Ingólfsson
Morgunblaðið, Menning (cultural pages)

Á dögunum lauk í Listasafni Kalmar í Svíþjóð sýningu Erlu S. Haraldsdóttur myndlistarkonu á stórum 18 fígúratífum málverkum. Á morgun gefur bókaútgáfan Crymogea út bók hennar, Make a Painting of Trees Growing in a Forest, um verkin á sýningunni.

„Ég fékk hugmyndina að þessari bók þegar ég vann að þeirri síðustu, Difficulty of Freedom – Freedom of Difficulty sem Crymogea og Listaháskólinn í Umea gáfu út í fyrra,“ segir Erla. Sú bók byggir á samstarfi þar sem myndlistarmenn og listnemendur gefa hverjum öðrum verkefni og lesandinn sér bæði fyrirmælin og útkomuna. „Þessi nýja bók er líka undir áhrifum af franska bókmenntahópnum Oulipo sem í voru rithöfundar á borð við Italo Calvino og Georges Perec sem skrifaði til að mynda heila bók án þess að nota bókstafinn E. Ég hreifst fyrst af slíkri nálgun í sköpunarferlinu fyrir um tuttugu árum þegar ég var að læra í San Francisco og hef síðan hef ég af og til notað svona aðferðir í minni myndlist.“ Millifyrirsögn Erla nam myndlist á sínum tíma við Konunglega listaháskólann í Stokkhólmi og San Francisco Art Institute og hafa verk hennar verið sýnd víða um lönd í söfnum og sýningarsölum. Hún býr og starfar í Berlín. Málverkin í nýju bókinni urðu öll til út frá fyrirmælum sem hún fékk frá öðrum listamönnum um efni þeirra. Hvers vegna?

„Mér finnst afar erfitt að komast inn í skapandi vinnuferli, í flæði eins og listamönnum á að finnast eftirsóknarvert; manni fallast auðveldlega hendur frammi fyrir hugmyndum um að það sem maður skapar eigi að vera alveg frábært,“ segir hún og hlær. „En til að komast inn í slíkt skapandi flæði hef ég beitt ýmsum aðferðum. Í þessu verkefni lét ég aðra listamenn gefa mér fyrirmæli og verkefni að mála. Við að lesa þau koma fyrst orð upp í hugann, ég fer að skoða og taka ljósmyndir og teikna og loks tekst mér að koma hugmyndunum í málverk.“ Þegar spurt er hvernig þessi fyrirmæli geta verið segir hún eina spurninguna hafa verið „Hvað eru englar og hvaðan koma þeir?“ „Viðfangsefni málverkanna í bókinni er mismunandi en þau eru býsna há, 90 x 200 cm. Formið kemur frá japanska tréristu-meistaranum Hokusai. Hann gerði röð mynda af fossum sem allar eru í þessu formati. Verkefnið sem mér var falið að vinna útfrá hljómar svona: „Láttu tréristu Hokusai, Li Po dáist að fossinum við Lo Shan, hafa áhrif á þig. Og gerðu olímálverk sem er 90 x 200 cm að stærð. Gerðu fjögur verk af þessari stærð og byggðu þau á stöðum sem þú hefur komið á og dást að.“ Út frá þessu kom röð verka. Eitt sýnir dyravörð í fordyri, annað er gangur í kastala með uppstoppuðuð hausum veiðidýra, þá Seljalandsfoss og torfbær.“ Millifyrirsögn Um tíma vann Erla talsvert með ljósmyndasamklipp, teiknimyndir og teikningar en er málverkið alveg komið í forgruninn hjá henni núna?

„Grunnur minn er í málverki. Ég var í málaradeild í Konunglega listaháskólanum í Stokkhólmi og málaði þar til á síðasta árinu en þá voru allir í kringum mig farnir að gera vídeóverk, performansa og innsetningar. Mér leiddist að vera ein í vinnustofunni og vildi fást við það líka! Þá var mikil rætt um að málverkið væri dautt og ég vissi ekkert hvað ég ætti að mála. Á þessum tíma, fyrir um tuttugu árum, fannst mér að það ætti ekki eftir að mála neitt! Þá fór ég meðal annars að gera ljósmyndasamklipp, teiknimyndaverk og slíkt. En það togaði alltaf í mig að fara að mála aftur. Ég ákvað að helga mig aftur þessum miðli; ég hafði saknað málverksins. Og það tók nokkurn tíma að komast inn í það aftur.“ Er þú heldur ákveðnum performansþætti í því með fyrirmælunum?

„Já, það er satt. Og mér finnst eins og afstaðan sé breytt, til dæmis að nú sér aftur borin virðing fyrir handverkinu. Myndflæðið skellur nú á okkur allsstaðar að, upplýsingarnar eru á netinu og ekkert mál að taka myndir og horfa á þær, en að mála tekur langan tíma og maður þarf að einbeita sér og vera út af fyrir sig. Það þarf að gefa ferlinu gríðarlega athygli og langan tíma, enda eru engar tvær pensilstrokur eins. Málverkið er svo mannlegt og djúpt,“ segir hún af sannfæringu.